Gróður

Sjáðu grösin í garði nágrannans.
Saklausu, litlu kærleiksgrösin
sem teygja sig í fagurgrænni gleði í átt til sólar
og sjúga þyrstum rótum
svala úr frjósömum sverðinum.

Ó, hve þau dafna vel í þessum garði,
snyrt eftir þörfum og nærð á hverju sumri
mönnum til yndis.

Í minni lóð vex aðeins
gulur sinuflóki.
Svo rennblautur af gamalli rigningu
að hann brennur ekki einu sinni
þótt eldur sé borinn að honum.
Og þó er það eina leiðin til að uppræta hann.

Á lóðinni minni
vaxa puntstrá með haustinu.
En hver kærir sig
um þessháttar fegurð?

Rof

Hvað sjá menn svosem
við uppblásið rofabarð?

Fáein græn strá
í svörtum sandi
bera vitni
viðleitni mannanna
í eilífri baráttu við vinda sjó
og sand.

Ekki lái ég þér
að hugsa til framandi stranda.

Þar er ekki sandurinn auðnarland
heldur gylltur af sól og hlýr.

Þar hlaupa fallegar stúlkur
skríkjandi út með öldunni
og börn byggja kastala
í skuggi pálmatrjáa.

Þar er ekki krían
vomandi yfir,
tilbúin að gogga í þig
þegar minnst varir,
engir vindar blása sandi í augu þín
og ekki bera öldur þeirra stranda
lík barna þinna að landi.

Auðvitað ferðu þangað,
auðvitað.

Samt kemurðu aftur
og aftur
á hverju vori
með handfylli af grasfræi

í þeirri staðföstu von
að eitt þeirra skjóti rótum.

Síðsumar

Sjáðu vindinn bylgja hágresið.
Hvað býr í djúpum þess græna fljóts
sem engu fleytir?Sumarkvöld
svamlar máttvana
í grænum öldum grassins.
Nú er af því dregið,
hrekst fyrir vindum
og sekkur í djúp jarðar.
Þar sýgur það úr grasrótum
líf sitt og lit
að skila til moldar á ný
að liðnum vetri.

Brum

Í dag kom vorið.
Það hljóp inn á skítugum skónum og kallaði,
„Sjáðu mamma!
Það er fullt af litlum laufblöðum
að brjótast út úr trjánum.“Og ég leyfði vorinu að
fara út á brúna
alla leið yfir litla skurðinn
sem markaði endalok veraldarinnar í gær.

Ljóð handa hvunndagshetjum

… og skuggar hnipra sig saman
þegar morgunskíman
vomir ógnandi yfir

matarleifum gærdagsins
á eldhússborðinu
dagatali fyrra árs
sem enn hangir á veggnum
og bunka af ógreiddum reikningum

barn í götóttum sokk
togar sængina niður á gólf
og skjannahvítur morgunn
heltekur
vansvefta mjaðmir

að 5 börnum fæddum
hreyfir líkaminn mótmælum;
fyrir undna tusku
eymsli í öxlum
og stingur í mjóbak og mjöðm
við hvert moppudrag yfir gólfið

bjúgur dagsins
fyrir heimilisreksti
brjósklos næturinnar
fyrir uppsöfnuðum vanda
dugar ekki til

og bankinn
kinkar kolli samúðarfullur
og skrifar læknisvottorð;
sólarrhing
með 3 vinnustundum til viðbótar

og skuggarnir anda léttar
og breiða úr sér
yfir rúminu.