Sálmurinn

Úr söngleiknum „Leikfimi“ eftir Björn Sigurjónsson og Evu Hauksdóttur.
Sértrúarsöfnuðurinn flytur þennan söng við innvígslu nýrra félaga.
Nauðsynlegt er að nokkrir meðlima kórsins séu hjáróma.

#Tak mig til þín,
tákn þíns heilaga anda mér sýn.
Þinn kjötlegur sonur í kærleika
kemur til mín.#

Leið oss að ljósi þíns dreyra,
lambhrúta sanna.
Frá jörðu þú jarm vort munt heyra,
já, hósíanna.

Kaleik þíns eilífa anda
erum vér þyrst í.
Gef oss af gnótt þinna handa,
gloría Kristí.

Sál vora af saurugum dansi
Satans fulltrúa,
hreins þú með himneskum fansi,
heyr, hallelúja.

Leys oss frá drykkju og dræsum,
djöflum oss fría.
Lát oss ei enda í ræsum,
ave María.

Líkna þú aumum ódámi,
eilífa gef von.
Frelsa oss frá kynvillu og klámi,
kyrie eleison.

Gjör oss af andanum ölvuð
en ei brennivíni.
Drykkja og dóp veri bölvuð,
deus ex machini.

Hugsjónalagið

Ég á mér sýn
um sælla líf og betri heim.
Þar sem börnin vaxa úr grasi
í sannri gleði og sálarró.
Það er köllun mín
að kenna þeim.

Á sólarstöðu sérhvern dag þau hefja
og synda að því loknu, góða stund,
þau aldrei meir við tölvuleiki tefja
en trúa á lýsi og eftirmiðdagsblund.

Við handahlaup þau hálfan daginn una
og hoppa yfir leðurklæddan hnall.
Þau ganga á slá og teygja arma
og taka lítið stökk
á trampólíni og enda í frjálsum spuna.

Ég á mér sýn
um betri heim að samastað.
Þar sem jafnvægi er á öllu,
þar sem brosir jang við jin.
Það er köllun mín
að kenna það.

Í beinni röð þau ganga og bilin jafna
með bakið rétt og horfa fram á við.
Þau skrumi, dópi og skyndifæði hafna
og skilja mína speki um innri frið.

Iðrunarlagið

Vinkonurnar hafa sært hvor aðra og eru miður sín vegna þess en hvorug þorir að rétta fram sáttarhönd

Orð hafa mátt sem eflir og nærir
andvari þeirra er ljúfur og hlýr.
Hvetur til dáða, huggar og hrærir
harmi og raun til bjartsýni snýr.

Orð hafa mátt sem meiðir og særir,
vindur þess ofsa eyðir og tærir
Eldur í hverri orðræðu býr.
Og aldrei er hægt að taka
töluð orð
til baka.

Hallgerður: Vináttu okkar brotið er blað
því burt frá mér hef ég hrakið
þá einu sem hjartað þráir
-og það
er þyngra en tárum taki.
Nú veit ég hver játning á stund sína og stað
og tek ekki séns á að segja þér hvað
minn söknuður djúpt mig þjáir.

Marlín: Orðum ég hef í ógáti beitt
og einasta vininn svikið
um aðgát í návist sálar
-og meitt
Enginn veit hversu mikið
ég gæfi ef gæti ég einhverju breytt
en þori ekki að segja „mér þykir það leitt“
og þögnin er hvöss sem nálar.

Sálmur

Þótt ríki í heiminum harðræði og stríð
skal hjarta þitt friðhelgi njóta,
í kærleikans garði þú hvílist um hríð
og hversdagsins þjáningar standa til bóta.
Veröldin sýnir þér vorgrænan skóg
svo vitund þín unun þar finni
og góðvildin, blíðan og gleðinnar fró
gróa í hugarró þinni.

Í garðinum vaxa þau vináttublóm
sem von þína á hunangi næra
og aldreigi þurfa að óttast þann dóm
sem árstíðasviptingar jörðinni færa.
Þín blygðun er ástinni óþurftargrjót
sem uppræti heiðarlegt sinni,
svo breiði hún krónuna birtunni mót
og blómstri í einlægni þinni.

Með auðmýkt skal frjóvga þau fegurðarkorn
sem falla í jarðveg þíns hjarta.
Í dyggðinni vitrast þér vísdómur forn
og val þitt mun samhygð og örlæti skarta.
Þó læðist að vafi, um lostann er spurt
ég læt mér það nægja að sinni,
að nefna þá staðreynd að nautnanna jurt
nærist á ástríðu þinni.

Gímaldin gerði síðar lag við þennan texta.