Hvatningarlagið

Helga er að æfa sig fyrir leikfimikeppni og vinkonur hennar hvetja hana.

Ása: Teygja, púla taka á
takmarkinu ef viltu ná.
Efla bæði þrek og þol
þjálfa leggi skut og bol.

Helga: Gengur hægt, hvað á ég að gera?
Ása: -nú gef ég þér stera.

Ása: Stelpu sterka höfum við.
Stöndum báðar þér við hlið.
Ef þú þolir ekki tap
efla skal þitt keppnisskap

Helga: Ef ég tapa, eflaust ég dæi.
Signý: -ert´ekki í lagi?

Helga: Hvernig verður keppnin sú?
Kannski alveg úr úr kú?
Ása: Öll hún fer á einhvern veg
Signý: -aldrei verri en ömurleg.

Helga: Hvað vantar svo ég vinni’essa keppni
Signý: -helvítis heppni

Ása: Ef þú þreytist þessu á
þokkalega mundu þá:
árangur er afstæður
Signý: -aldrei verri en afleitur.

Helga: Sæll mun verða sigursins losti
Signý: -hvað ætli´ann kosti?

Sælgætislagið

Þetta lag syngur skutlan í stykkinu þegar hún er að fríka út á heilsusamlegu líferni.

Hvað er svona æðislegt við endorfín?
að engjast um í krampakenndri mæði,
hlaupa, stökkva og svitna eins og svín,
ég súkkulaði miklu fremur þæði.

Pheny-la-la-nin
Phe-nyle-thy-la-min
það er betra en vatn og vítamín.

Karamella er betri en dóp og brennivín
og brjóstsykurinn örvar heilans flæði.
Á súkkulaði æpir sála mín
því sykurkikk ég fremur vímu þæði.

Pheny-la-la-nin
Phe-nyle-thy-la-min
það er betra en hass og heróín.

Mig langar ekki í skemmtun, hlátur, skaup og grín
og skammvinn nautn er klístruð svita og sæði
og oft er feikuð fullnægingin mín
ég fremur ekta súkkulaði þæði.

Pheny-la-la-nin
Phe-nyle-thy-la-min
er miklu betra en ástarbrögðin þín.

Stríðnilagið

Leikfimikeppni er framundan og keppinautarnir veitast að Marlyn, sætustelpunni sem ætlar að vinna.

Fríkin: Hún er bæði fim og fær,
fjórða sæti eflaust nær.
Skortir trú á sjálfri sér
sigrar aldrei, því er ver

Vonleysið er undirrót vandans
Marlín: -farðu til fjandans.

Fríkin: Fellur rétt að fyrirmynd
fullkomlega á það blind
að ef þú ekki ert þú sjálf
ánægjan er minna en hálf.

Helga: Helst ég vildi hella hana fulla
Marlín: -hættu að bulla.

Fríkin: Brosið engu bjargar nú,
barbídúkkur eins og þú,
úr plasti fjöldaframleiddar
fylla búðarhillurnar.

Helga: Ljúft mér þætti að láta henni hitna
Marlín: -fyrr skal ég fitna.

Lostalagið

Ég elska hana ekki eins og systur
og óvíst hversu vel hún tæki því.
Og þessvegna er sem þokugrámi og mistur
þarfir mínar sveipi í dularský.
Ég þrái að halda í höndina hennar smáu,
horfa djúpt í augun bláu.
Þögnin virðist stundum þyngri en blý.

Mig langar hennar hörund til að snerta
og hárið síða greiða og flétta það
Með vörum mínum eyru hennar erta
og orðum mínum finna réttan stað.
Mig langar hennar hlátur til að fanga,
heita leggja kinn við vanga.
Ástarljóðum hvísla henni að.

Fegurð hennar fingurgómum strjúka
og finna hvernig hjartað bærist ótt.
Horfa á hana verða vota og mjúka
og vefja hana örmum heila nótt.
Bíta laust í brjóstið hennar hvíta,
blíðu minnar fjötra slíta,
horfa á andlit hennar verða rjótt.

Mig langar til að leggja hana á bakið
og lófum strjúka blítt um hennar kvið.
Hennar dýpstu frygð ef fæ ég vakið
þá fullnægjunnar opnast sáluhlið.
Af hungurkrafti ástarinnar ungu
æst ég þrái að leika tungu
um lærin stinn og stefna upp á við.

Vonbrigðalagið

Eddi, lúserinn í Leikfimi, er svekktur því yfirmaður hans sveik loforð um að láta hann vera kynni í sjónvarpsþætti.

Á hverjum degi þess ég minnast þarf
þvílík heppni sé að hafa starf.
Ég áður stóð í ólöglegu harki
og af því að ég gisti Litla Hraun
þér sjálfsagt finnst að svíkja mig um laun.
Ég sætti mig við það að vissu marki

#Ég hef tekið heimsins ranglæti með hægð
Því ég hélt ég fengi í staðinn
þessar fimmtán stuttu mínútur af frægð.#

Ég taldi víst að treysta mætti þér
að tækifærið loksins gæfist mér,
að standa á sviði, sveipaður í ljóma
í svörtum jakka og tala í míkrófón.
Að uppfylla ekki þessa einu bón
Er augljóst merki um hentistefnu tóma.

Ég átti að vera kynnir þetta kvöld
í kastljósinu og hafa þessi völd
sem öðrum virðast enganveginn nægja.
Og athygli frá sætum stelpum fá,
mér gripi enginn frammí fyrir þá
ég fengi allan salinn til að hlæja.

Ég vildi gera mömmu stolta af mér
og margítrekrað loforð tók af þér.
Og voðalega verður pabbi svekktur.
Ég var sko búinn að segja honum frá því
hann fengi að sjá mig sjónvarpinu í
og segja öllum „strákurinn er þekktur“.